Wow air hyggst kynna flug til Asíu í næsta mánuði. Þetta kemur fram í viðtali við Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda Wow air, á ferðavefnum Airport Transport World . Wow air flýgur nú þegar til eins áfangastaðs í Asíu, Tel Aviv í Ísrael.

Skúli segist eiga von á því að mesti vöxtur Wow á næstu árum verði í Asíuflugi. Hann sér fyrir sér að Wow muni bjóða á næstu árum bjóða upp á flug til 14-15 áfangastaða í Asíu eða álíka marga og Wow býður nú upp á í Norður-Ameríku. „Það myndi gera Ísland að Dúbaí norðursins,“ segir Skúli.

Þá segist Skúli vel geta ímyndað sér að flugfloti Wow air, sem mun telja 24 flugvélar í árslok, gæti tvöfaldast á ný á næstu árum.

Skúli segir einnig vera til skoðunar hjá Wow að bæta við annarri flughöfn (e. hub) en á Íslandi, líkt og Skúli talaði um í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Flugfélagið sé með umframafkastagetu á veturna sem gerir flugfélaginu mögulegt að bæta við flugferðum á erlendri grundu yfir vetrarmánuðina.