WOW air auglýsir á morgun eftir 28 flugmönnum til starfa. Þetta er í fyrsta sinn sem félagið auglýsir eftir flugmönnum en þegar WOW fær flugrekstarleyfi munu flugmenn starfa undir merkjum WOW air. Ráðning flugmanna er liður í auknum umsvifum félagins en um er að ræða framtíðarstörf á nýlegum A321 og A320 vélum WOW air.

„Það er ánægjulegt að auglýsa eftir flugmönnum í framtíðarstörf sem munu fljúga undir flaggi WOW air. Félagið hefur stækkað jafnt og þétt frá fyrsta flugi þess í maí 2012 en það ár flaug félagið með um 90 þúsund farþega, núna í ár verður farþegafjöldi um 450 þúsund og stefnt er að á næsta ári að félagið fljúgi með yfir 720 þúsund farþega“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air í tilkynningu.

WOW air hyggst fljúga til 18 áfangastaða bæði í Evrópu og Norður Ameríku frá næsta vori.