Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Wow air hafi brotið gegn fjarskiptalögum þegar félagið sendi tölvupóst fyrir beina markaðssetningu á tölvupóstfang manns í október og nóvember 2012. Maðurinn hafði áður afþakkað allar slíkar sendingar og kærði því málið. Nefndin telur að félagið hafi ekki fært sönnur á að Iceland Express, forveri Wow air, hafi aflað upplýsts samþykkis mannsins fyrir slíkri sendingu.

Fram kemur í umfjöllun um úrskurðinn í málinu sem birtur er á vef Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) að í málinu hafi jafnframt verið tekist á um það hvort yfirfærsla tölvupóstlista Iceland Express til Wow air hafi verið heimil. Staðfesti nefndin þá niðurstöðu PFS að stofnunin sé ekki bær til að endurmeta lögmæti samrunans og þar með yfirfærslu þeirra eigna sem kaupunum fylgdi.

Úrskurður í máli Wow air