Wow air tók í gær á móti nýrri Airbus A320 vél árgerð 2011 og fór hún með farþega Wow air frá London til Íslands í gærkvöldi.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að þetta er fyrsta vélin af fjórum nýlegum Airbus A320 vélum sem Wow air mun taka í gagnið fyrir næsta vor.

„Vélin verður nýjasta þotan sem notuð er í áætlunarflugi til og frá Íslandi af íslensku flugfélagi og er allur aðbúnaður um borð eins og best verður á kosið,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að engin breyting verður á samstarfi Wow air við Avion Express sem verður áfram flugrekstraraðili félagsins.

„Það er virkilega ánægjulegt að geta strax tekið í notkun þessa fyrstu af fjórum nýlegum Airbus A320 vélum sem Wow air mun vera með í notkun frá og með næsta vori,“ segir Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri Wow air, í tilkynningunni.