Flugfélagið WOW air hóf á dögunum auglýsingaherferð en þetta nýja félag hefur flug þann 1. júní næstkomandi. Hluti herferðarinnar er sjónvarpsauglýsing sem hefur verið til umræðu á kaffistofum víða um bæ og kitlar taugar þeirra sem minnast níunda áratugarins með eftirsjá.

Auglýsingin er eftirmynd tónlistarmyndbandsins sem fylgdi höfuðstefi flugmyndarinnar Top Gun, þar sem þeir Tom Cruise og Val Kilmer voru í aðalhlutverkum. Hún var hönnuð af auglýsingastofunni Brandenburg og segir starfsmaður stofunnar, Bragi Valdimar Skúlason, betur þekktur sem Bragi Baggalútur, það hafa verið auðveldara að fá hugmyndina en leyfi fyrir framkvæmdinni. „Að fá leyfi fyrir laginu frá höfundunum var tiltölulega auðsótt en svo þurfti að fá leyfi frá útgefandanum og kvikmyndafélaginu sem á myndina. Af því þetta er lag úr bíómynd þá eru svo margir sem eiga réttinn.“

Hér má sjá myndbandið úr Top Gun og endurgerð WOW air að neðan. Upprunalega lagið "Top Gun Anthem" var flutt af gítarleikaranum Steve Stevens en höfundur lagsins er Harold Faltermeyer. Í myndbandinu sjást Stevens á gítarinn og Faltermeyer við píanóið. Lagið hlaut Grammy verðlaun árið 1987.

Fyrir endurgerð WOW air var lagið tekið upp á ný og er flutt af íslenskum tónlistarmönnum. Í myndbandinu hér að neðan sjást þeir Gylfa Ægisson við píanóið og Jón Atli (Hairdoctor) Helgason sem leikur á gítar.

Nánar er fjallað um málið í liðnum markaðsmál í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.