Flugfélagið Wow air flutti 3.300 farþega milli Dyflinnar á Írlandi og Keflavíkur í fyrsta mánuðinum sem félagið starfrækti flugleiðina. Þetta kemur fram á írska fjölmiðlinum Business and leadership .

Wow air hóf áætlunarflug til Dyflinnar þann 2. júní síðastliðinn og flýgur til borgarinnar þrisvar í viku; á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum. Sætanýting Wow air á þessari flugleið nam um 81% í mánuðinum.

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, fagnar þessum árangri í samtali við Business and leadership og segir að bókunarstaðan yfir sumartímann sé góð. Stefnt sé að því að halda áfram að starfrækja flugleiðina yfir veturinn og vonast hann til að norðurljósin muni vekja áhuga írskra ríkisborgara yfir vetrartímann.