WOW air var stærsta flugfélag Íslands í janúar og flutti 217 þúsund farþega, sem er 8 þúsund fleiri farþegar en næsta félag. Flugfélagið sem er í eigu Skúla Mogensen, flutti 27% fleiri farþega en í janúar árið 2017.

Sætanýting WOW air í janúar var 88% en sætanýting í fyrra á sama tímabili var 85%. Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 30% í janúar frá því á sama tíma í fyrra. WOW air flutti um 8 þúsund fleiri farþega í mánuðinum en það félag hér á landi sem flutti næstflesta farþega að því er segir í fréttatilkynningu, en það er þá væntanlega Icelandair sem hefur verið stærst alla jafna.

„Þegar við hófum þetta ævintýri efast ég um að nokkur hafi átt von á því að WOW air yrði stærsta flugfélagið á Íslandi á rétt rúmum fimm árum,“ segir Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri WOW air.

„Við höfum lagt okkur fram við að dreifa farþegafjöldanum yfir allt árið og það er ánægjulegt að sjá okkur fylla vélar líka í janúar. Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir þær frábæru móttökur sem við höfum fengið frá fyrsta degi og fyrir okkar framúrskarandi starfsfólk sem lætur WOW drauminn rætast.“

Flugfloti WOW air verður 24 þotur í lok árs en félagið mun taka á móti sjö glænýjum þotum á árinu;  tveimur Airbus A321ceo, einni Airbus A321neo og fjórum 365 sæta breiðþotum af gerðinni Airbus A330-300neo.

WOW air verður annað flugfélagið í heiminum til að taka á móti slíkum breiðþotum. Þessar sjö vélar eru allar glænýjar, árgerð 2018 og koma beint frá verksmiðjum Airbus í Evrópu.

Á árinu mun WOW air bæta við sig áætlunarflugi til Detroit, Cleveland, Cincinnati, St.Louis og Dallas.  Einnig mun félagið fljúga til tveggja flugvalla New York borgar; til Newark flugvallar og JFK flugvallar. Flogið verður 20 sinnum í viku til New York.