Wow air hefur ákveðið að auka við flug félagsins til Parísar og mun fljúga þangað allt árið um kring. Flogið verður sex sinnum í viku næsta sumar, á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum, laugardögum og sunnudögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Wow air en fyrsta flug sumarsins til Parísar verður flogið þann 8. júní nk. Wow air fór í jómfrúarflug sitt til Parísar 31. maí 2012 og flaug þangað tvisvar sinnum í viku síðastliðið sumarið.

„Ferðamönnum frá Frakklandi hefur fjölgað mikið síðustu ár og við höfum fundið fyrir mikilli eftirspurn frá Frökkum eftir ódýrum flugsætum til Íslands,“ segir Inga Birna Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs Wow air í tilkynningunni.

„Gerðir hafa verið samningar við stórar og öflugar franskar ferðaskrifstofur sem telja að Ísland geti orðið enn vinsælli áfangastaður allan ársins hring en norðurljósaferðir hafa vakið mikla athygli. Flug til Parísar allt árið er einnig liður í stækkun félagsins en Wow air hyggst fljúga til Bandaríkjanna árið 2014 og munu því Frakkar geta nýtt sér þetta tengiflug. París er spennandi viðbót við þá áfangastaði sem Wow air flýgur til allan ársins hring.“