Friðarljósið frá Betlehem verður flutt í dag til Íslands með Wow air. Þetta er í fyrsta sinn sem ljósið er flutt með flugi til landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Wow air.

Í tilkynningunni segir einnig að kaþólska kirkjan á Íslandi hafi komið að máli við Egil Reynisson flugrekstrarstjóra WOW air um að aðstoða við flutninga á friðarljósinu með flugi til Íslands um jólin: „Okkur hjá Wow air fannst þetta vel í anda jólahátíðarinnar og vildum leggja okkur fram við aðstoða með flutninginn. Það var sjálfsögðu gert með leyfi Samgöngustofu sem tók strax vel í þetta skemmtilega erindi,“ segir Egill Reynisson flugrekstrarstjóri Wow air.

Talið er að logi hafi logað óslitið allt frá upphafsárum kristninnar og hefur hann verið kallaður Friðarloginn. Austurrískir skátar fóru til Betlehem árið 1986 og sóttu þangað loga til að byrja þá hefð að útdeila friðarljósinu víða um heim sem tákn um frið á jörðu óháð trúarbrögðum, þjóðerni og kynþáttum.

Friðarljósinu er dreift á þessu ári undir kjörorðinu „Réttur til friðar“. Þar með er vísað til almennrar yfirlýsingar um mannréttindi sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna undirrituðu fyrir 65 árum. Skátahreyfingin hefur stutt þetta verkefni í Evrópu og í ár sjá sendinefndir frá Argentínu og Bandaríkjunum um að dreifa friðarljósinu utan Evrópu. Að þessu sinni skipurleggur kaþólska kirkjan dreifinguna og mun biskup kirkjunnar á Íslansdi taka á móti friðarljósinu.

Ljósið kom síðast til landsins fyrir rúmlega 10 árum síðan með Dettifossi. Ljósið mun koma til landsins með flugi WOW air frá Kaupmannahöfn kl. 14.40 síðdegis í dag.