Nú í morgun hóf WOW air áætlunarflug til Stokkhólms en félagið býður nú upp á flug þangað fjórum sinnum í viku, allan ársins hring. Flogið er til Stockholm Västerås flugvallar (VST) sem þjónar Stokkhólmi en einnig Uppsala, Västerås, Örebro og Eskilstuna og sveitunum í kring. Frá Västerås flugvelli er auðvelt að ferðast með lest eða rútu til miðborgar Stokkhólms. 

Í tilkynningu frá félaginu segir að gera megi ráð fyrir að ferðamönnum frá Svíþjóð muni fjölga enn meira á Íslandi með tilkomu þessarar nýju flugleiðar en einnig að fleiri Svíar noti tækifærið og fljúgi áfram til Norður-Ameríku.

„Ég er sérstaklega ánægður að hefja flug til Svíþjóðar enda ólst ég þar upp og þekki landið vel.  Við höfum fengið frábærar móttökur og ljóst að það er mikil eftirspurn og tækifæri að bjóða upp á mun lægri fargjöld en hingað til hafa tíðkast til og frá Svíþjóð. Stokkhólmur Västerås flugvöllur verður mikilvægur heilsársstaður í okkar leiðarkerfi og liður í stækkun WOW air og þeirri sýn okkar að tengja Evrópu og Norður-Ameríku enn frekar“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.