Fyrsta flug WOW air til Washington, D.C. fer í loftið klukkan 15:30 í dag en félagið mun fljúga þangað allan ársins hring fjórum sinnum í viku út maí og svo fimm sinnum í viku frá og með 1. júní 2015.

Flogið er til BWI, eða Baltimore Washington International flugvallar, en fram kemur í tilkynningu frá félaginu að hentugar samgöngur séu þaðan til Washington borgar og taki hálftíma að fara á milli með hraðlest.

Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið í janúar að auka við flugframboð WOW air til Washington, D.C. en upphaflega ætlaði félagið eingöngu að fljúga þangað fjóra mánuði á ári.

„Þær móttökur sem við höfum fengið frá því við hófum sölu á flugi til Baltimore Washington flugvallar hafa verið framar björtustu vonum. Sala beggja vegna Atlantshafsins sem og á Íslandi hefur gengið afar vel og höfum við nú þegar aukið framboðið og munum fljúga þangað allan ársins hring. Einnig er flugvöllurinn mjög hentugur tengiflugvöllur til annarra áfangastaða í Bandaríkjunum“ segir Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air.