Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow air, gerir ráð fyrir því að flugfélagið flytji 3 milljónir farþega á næsta ári. Þetta kom fram á ráðstefnu Íslenska sjávarklasans, Flutningalandið Ísland. Wow air flutti 1,6 milljón farþega á þessu ári, en spár félagsins gera ráð fyrir að sá fjöldi muni tvöfaldast. Um þetta er fjallað í frétt Mbl.is.

Velta Wow air á þessu ári kemur til með að vera 36 milljarðar, en hann gerir jafnframt ráð fyrir því að hún gæti farið upp yfir 50 og jafnvel upp í 60 milljarða á næsta ári. Á öðrum ársfjórðung árið 2016 voru tekjur Wow air 7,7 milljarðar króna. Félagið hagnaðist um 400 milljónir á sama tímabili.

Bilið minnkar óðfluga

Ferðavefurinn Túristi.is , hefur framkvæmt áhugaverðan samanburð á farþegafjölda flugfélögunum Icelandair og Wow air. Þar kemur fram að árið 2015, hafi Icelandair flutt 3 milljónir farþega árið 2015 og að á næsta ári áætla stjórnendur félagsins að farþegarnir verði 4,2 milljónir. Ef að áætlun Wow air stenst, þá þýðir það að árið 2017 verði farþegafjöldi flugfélagsins svipaður og hjá Icelandair 2015.