WOW air þarf, samkvæmt úrskurði Samgöngustofu, að greiða sjö farþegum 50.000 kr. í bætur hverjum um sig, vegna seinkunar sem varð á flugi félagsins frá Amsterdam til Keflavíkur á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef Rúv í dag. Seinkaði fluginu um þrjár og hálfa klukkustund vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra.

Samkvæmt talsmönnum WOW air var seinkunin tilkomin vegna þess að ekki hafi náðst að manna stöður sem til þurfti til að flugturninn væri starfshæfur og öryggiskröfum fullnægt. Starfsmenn WOW hafi reynt að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að koma vélinn af stað sem allra fyrst frá Amsterdam - þeir hafi þannig verið eina og hálfa klukkustund að gera vélina klára.

Í úrskurði Samgöngustofu var komist að þeirri niðurstöðu að þarna hafi ekki verið um svokallaðar óviðráðanlegar aðstæður að ræða og var flugfélaginu því gert að greiða farþegunum hverjum um sig tæpar 50 þúsund krónur.