Wow air hefur hætti við flug til Frankfurt í Þýskalandi næsta sumar.

Frá þessu er greint á vefsíðunni Túristi.is en flugleiðin var hluti af áætluðu leiðarkerfi Iceland Express næsta sumars. Sem kunnugt er keypti Wow air rekstur Iceland Express sl. haust og tók um leið yfir áætlunarleiðir félagsins. Wow air mun fjölga ferðum til áfangastaða eins og Kaupmannahafnar, Parísar og London.

Á Túristi.is kemur réttilega fram að á síðasta ári var flogið hingað til lands frá átta þýskum flugvöllum og í lok nóvember höfðu lent í Keflavík um 64 þúsund Þjóðverjar samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu.

Icelandair er nokkuð ráðandi á leiðinni til Frankfurt en félagið flýgur þangað allan ársins hring og tíu sinnum í viku á sumrin. Þá hafa airberlin og Lufthansa flogið til Íslands frá Þýskalandi á sumrin.