Í dag hóf WOW air áætlunarflug til Dyflinnar og mun fljúga þangað allan ársins hring. Flogið verður þrisvar sinnum í viku á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum. Wow air er fyrsta íslenska flugfélagið sem er með áætlunarflug til borgarinnar, samkvæmt fréttatilkynningu.

„Það er ánægjulegt að bæta við enn einum áfangastaðnum en við fljúgum nú til 20 áfangastaða bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Við gerum ráð fyrir að um 750 þúsund farþegar muni fljúga með Wow air í ár og áætlum 50% farþegaaukningu á milli 2015 og 2016,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi Wow air.

Wow air hefur bætt við sex nýjum áfangastöðum í ár. Auk Dyflinnar bættust nýlega við leiðakerfi flugfélagsins Boston, Washington DC, Róm, Billund og Tenerife.