Wow air hefur sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna meintrar misnotkunar Icelandair á markaðsráðandi stöðu. Fjallað er um málið í DV í dag. Blaðið segist ekki hafa heimildir fyrir því um hvað kæran snýst nákvæmlega en hugsanlega snúist málið um meinta sölu Icelandair á flugmiðum á undirverði til ákveðinna áfangastaða til að hafa betur í samkeppninni við WOW air.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir kvörtun hafa borist. Hún sé til meðferðar og búið að afla gagna í málinu. Hann segir slíka rannsókn geta endað með sektum eða íhlutun, breytingum á starfsemi og öðru slíku. Ekki liggur hins vegar fyrir hvort um brot á samkeppnislögum sé að ræða.