*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 26. apríl 2018 14:53

Wow air með dýrustu vörurnar um borð

Af 18 lággjaldaflugfélögum í Evrópu rukkar Wow air mest fyrir mat og drykk um borð, eða 32% meira en meðaltalið.

Ritstjórn
Þjónusta var í boði um borð í jómfrúferð Wow air, þegar flugfélagið hóf starfsemi sína.
Sigurjón Ragnar

Í könnun hollensks fjölmiðils á hvað vörur og þjónusta um borð í mismunandi lággjaldaflugfélögum í Evrópu kosta, trónir Wow air á toppnum. Í frétt um málið segir að þó félagið sé þekkt fyrir ódýr flugfargjöld til Bandaríkjanna, þá séu vörur og þjónusta sem keypt er um borð næstum 32% dýrari en hjá meðallággjaldaflugfélaginu.

Nefna þeir sem dæmi að samloka kosti 9 evrur um borð í flugvélum félagsins og mælt er með því að taka með sér nesti. Önnur flugfélög sem þeir nefna sem dæmi um að hafi dýra þjónustu um borð er Ryanair, en samtals var gerð könnun um verð um borð í 18 flugfélögum. Þar á meðal EasyJet og Ryanair, sem og hollensku flugfélögin Transavia og TUIfly, sem bæði voru tiltölulega ódýr.

Ódýrasta flugfélagið, þegar kemur að þjónustu um borð, var aftur á móti tyrkneska flugfélagið Turkish SunExpress, sem flýgur milli Amsterdam og fimm áfangastaða í Tyrklandi. Matur og drykkur er þar um 23% ódýrari en meðaltalið meðal lággjaldaflugfélaga, og nefna þeir sem dæmi að kaffi og te kosti 2 evrur, sem sé svipað verð og á jörðu niðri.