Icelandair og Wow air standa undir stærstum hluta af öllum flugferðum frá Keflavíkurflugvelli. Hlutdeild Icelandair og Wow air hefur breyst talsvert milli ára. Þetta kemur fram í umfjöllun Túrista.

Í apríl á þessu ári var hlutdeild Wow air 30,2 prósent byggt á fjölda áætlunarferða. Hins vegar var hlutdeild Icelandair hærri, eða 46,3 prósent. Breytingin er þó mjög mikil milli ára. Til að mynda var Wow air einungis með 10% hlutdeild árið 2013. Icelandair var þá með 77 prósenta hlutdeild og hefur Icelandair lækkað um nálega 30 prósentustig.

Sextíu áætlunarferðir á dag

Að jafnaði voru í boði sextíu áætlunarferðir á dag frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í apríl og fjölgaði daglegum brottförum um 18 frá sama tíma í fyrra samkvæmt daglegum talningum Túrista.

Í apríl 2014 voru daglegu ferðirnar 28 eða um helmingi færri en í apríl á þessu ári. Þó fjölgaði flugfélögum á þessum tíma aðeins úr 14 í 16. Flugfélögin hafa þó fjölgað ferðum og áfangastöðum en í apríl var flogið frá Keflavíkurflugvelli til 55 áfangastaða.