Flugbrautirnar á Keflavíkurflugvelli hafa staðið tómar í hádeginu hingað til en félagið hyggst einnig nýta vannýttan tíma á kvöldin í Bandaríkjaflug að því er Túristi greinir frá. Milli hálf tólf og korter í eitt hefur löngum verið þannig að engar brottfarir hafa verið á dagskrá á Keflavíkurflugvelli, en nú verður sú kyrrð rofin.

Hyggst Wow air nú hefja flug til Amsterdam, Dublin, Parísar og Kaupmannahafnar á þessum tíma, en þær þotur sem þangað munu fljúga munu ná að komast til baka aftur um kvöldmatarleytið og því nýtast fyrir áætlunarflug til Cincinatti, Cleveland, Dallas og Detroit í Bandaríkjunum.

Flugið þangað mun hefjast milli níu og hálftíu á kvöldin, en sá tími hefur verið rólegur hingað til þar sem einu farþegarnir á svæðinu hafa verið á leið með Wizz Air til Austur Evrópu. Þær vélar munu svo koma til baka á ný milli klukkan hálfellefu og ellefu daginn eftir.

Isavia hefur boðið flugfélögum fjórðungs afslætti af farþegagjöldum í tengslum við flug í kringum hádegi og kvöldmat, eða sem nemur um 640 krónum á hvern farþega. Met var sett 6. ágúst síðastliðinn í fjölda farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með 40.147 farþegum á einum sólarhring. Leiða má líkum að með bættri nýtingu dauðu tímanna geti það met verið slegið fljótt.