Samkvæmt upplýsingum um komu- og brottfarartíma á Keflavíkurflugvelli , hefur flestum brottförum Wow air í dag verið seinkað.

Brottför í flugi félagsins til Dublin hefur verið frestað, en vélin átti að fara kl. 6:55 í morgun en nú er áætluð brottför 20:50. Þá hefur brottförum félagsins vestur um haf til New York, Detroit, Toronto og Baltimore verið seinkað og er áætluð brottför þeirra allra 15:45. Flugi félagsins til Montreal hefur einnig verið seinkað til kl. 16:15 og flugi til London hefur verið seinkað til kl. 20:00. Engin brottför er því áætluð fyrir kl. 15:45.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia þá sjá flugfélögin sjálf um að uppfæra komu- og brottfarartíma á upplýsingasíðu Isavia. Ekki hefur tekist að ná tali af forsvarsmönnum Wow til að leita skýringa á þessum seinkunum.

Óvissa með morgundaginn

Áætlun Wow air á morgun gerir ráð fyrir fjórtán brottförum frá Keflavíkurflugvelli. Af þeim eru átta ferðir í fyrramálið en nú er eingöngu hægt að bóka sæti í fjórar þessara ferða, að því er Túristi greinir frá.

Þá segir að seinni part dags á morgun eigi þotur Wow svo að fljúga til fimm borga í Norður-Ameríku og einnig Tenerife. Nú sé aðeins hægt að bóka miða til Tenerife og Toronto en ekki til New York, Baltimore/Washington, Boston og Montreal.