Annað árið í röð hefur flugfélagið WOW air verið valið sjöunda besta lággjaldaflugfélagið í Evrópu samkvæmt World Airline Awards .

Valið er í höndum farþega en fjöldi ferðamanna um allan heim tekur þátt á hverju ári í stærstu ánægjukönnun um gæði flugfélaga og flugvalla víðs vegar um heiminn. Breska fyrirtækið Skytrax hefur haldið utan um þessa skoðanakönnun síðastliðin 16 ár yfir bestu flugfélögin og flugvellina í heiminum.

„Það er mikill heiður að komast á þennan topp tíu lista annað árið í röð sérstaklega þar sem valið er í höndum farþega. Við settum okkur fjögur lykilmarkmið frá upphafi félagsins sem við höfum reynt standa við; bjóða upp á lægsta verðið, vera stundvísust, nýjar vélar og ávallt bjóða upp ferska og skemmtilega þjónustu. Þetta hefur augljóslega skilað sér til farþega okkar,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.

Þá er Icelandair í 81. sæti yfir hundrað bestu flugfélög í heimi, en flugfélagið var í 71. sæti á síðasta ári.