Wow air tapaði 794 milljónum króna á síðasta ári. Þetta var fyrsta heila árið í rekstri flugfélagsins, sem var stofnað undir lok árs 2011. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, segir í tilkynningu að það kosti mikið að stofna flugfélag og hafi hann gert ráð fyrir tapi á rekstrinum fyrstu árin.

Fram kemur í uppgjöri Wow air að rekstrartekjur námu 2,5 milljörðum króna í fyrra. Rifjað er upp í uppgjörinu að hlutafé félagsins var aukið um 1.000 milljónir króna í fyrra. Það er allt í eigu Títan fjárfestingafélags ehf. og hvíla engar vaxtaberandi skuldir á því. Í uppgjörinu er rifjað upp að mikil  uppbygging hafi átt sér stað hjá Wow air. Þar beri einna hæst yfirtakan á rekstri Iceland Express í lok október í fyrra og hafi fyrirtækið vaxið mikið síðan þá.

Rekstrarhagnaður á þessu ári

Þá kemur fram í uppgjörinu að afkoman hafi batnað talsvert á fyrstu sjö mánuðum þessa árs. Rekstratekjur námu 5,5 milljörðum króna og var rekstrarhagnaður (EBITDA) 184 milljónir króna. Skúli segir þetta mjög ánægjulegt og afkoman betri en gert var ráð fyrir.

Sætanýting félagsins er 82% fyrir janúar - júlí og hefur WOW air flutt yfir 236 þúsund gesti það sem af er árinu, að því er segir í tilkyninningunni. Hjá Wow air störfuðu í lok síðasta árs 94 en nú starfa yfir 160 hjá félaginu. Fjórar Airbus A 320 flugvélar eru í rekstri félagsins.