Fyrir rúmum mánuði síðan sagði sendiherra Íslands á Indlandi, Þórir Ibsen, við suður-asíska fjölmiðla að það kæmi sér ekki á óvart ef beint flug myndi hefjast milli Indlands og Íslands fyrir haustið 2018. Sagði hann jafnframt að líkur stæðu til þess að íslenskt flugfélag myndi veita þá þjónustu.

Indland er annað fjölmennasta land í heimi á eftir Kína með fjórða mesta hagvöxtinn á heimsvísu. Hlutur Indverja í ferðamannaflórunni hér á landi hefur vaxið stöðugt undanfarin þrjú ár og hafa upptökur á Bollywood kvikmyndum og myndböndum hér á landi færst í aukana. Indverska millistéttin fer vaxandi og eru Indverjar tekjuhæsti þjóðfélagshópur Bandaríkjanna. Ljóst er því að beint flug milli Indlands og Íslands býður upp á ýmis viðskiptatækifæri, einkum í ferðaþjónustu.

Velta má upp þeirri spurningu hvort flugfélagið WOW air muni hefja beint flug til Indlands næsta haust, en Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, hefur gefið það út að félagið muni hefja flug til Asíu á næsta ári. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa átt sér stað viðræður milli WOW air og hugsanlegra samstarfsaðila í Nýju Delí, höfuðborg Indlands.

Í svari við skrifaðri fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir WOW air að félagið sé ekki að einblína á Indlandsmarkað eins og er, heldur sé það að skoða nokkrar borgir í Asíu sem mögulega áfangastaði WOW air í framtíðinni.