Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir í samtali við Markaðinn á Fréttablaðinu að flugfélagið ætli að hefja áætlunarflug til Norður-Ameríku næsta vor.

Félagið hefur samið um kaup á tveimur Airbus A321 þotum fyrir Ameríkuflugið og gera áætlanir ráð fyrir að farþegum fjölgi úr 500 þúsund á þessu ári í 800 þúsund árið 2015. „Við erum komin með öll tilskilin leyfi fyrir Norður-Ameríku fluginu enda búin að undirbúa þetta núna í um ár eða síðan við fengum flugrekstrarleyfið.“

Skúli segir jafnframt í Markaðnum að áframhaldandi uppbygging WOW air kalli á hlutafjáraukningu og útilokar því ekki að aðrir fjárfestar muni koma að fjármögnuninni.