*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 18. ágúst 2017 10:12

Wow bætir enn við flugflotann

WOW air bætir við sig tveimur nýjum Airbus A320neo flugvélum og verða þær afhentar í október árið 2018.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

WOW air hefur undirritað samning um að taka í notkun tvær nýjar Airbus A320neo flugvélar, árgerð 2018, í október á næsta ári, en um er að ræða þurrleigusamning við Avolon. WOW air hefur þar með tryggt sér alls níu „neo“ Airbus flugvélar, en þær eru nýjustu flugvélarnar frá Airbus og fremstar í sinni röð að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Vélarnar nýta nýja tegund hreyfla sem minnkar eldsneytisnotkun um 14% miðað við núverandi tækni. Fyrsta vélin af þessari tegund, TF NEO, var tekin í notkun nú í vor en WOW air var fyrsta flugfélagið í Evrópu til að fá slíka vél afhenta. Samhliða þessu mun WOW air skila tveimur Airbus A320ceo vélum árgerð 2010.

Í lok árs 2018 verða flugvélar WOW air orðnar 24 talsins, þar með talið fjórar nýjar Airbus A330-900neo breiðþotur sem eru stærri og langdrægari en aðrar vélar á Íslandi og verða þær notaðar við áframhaldandi stækkun félagsins.

„Það er ánægjulegt að geta haldið áfram að bjóða upp á langyngsta flotann á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Ekki aðeins eru nýju vélarnar langdrægari og umhverfisvænni heldur eru þær einnig hagkvæmari í rekstri sem gerir okkur kleift að bjóða áfram upp á besta verðið,“ segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air.

Stikkorð: Skúli Mogensen Airbus Wow air