WOW Cyclothon hjólreiðakeppnin verður haldin í fjórða sinn dagana 23. júní -26. júní . Í keppninni verður hjólað með boðsveitarformi hringinn í kringum landið, um Hvalfjörð og yfir Öxi, samtals 1.332 kílómetra á innan við 72 tímum.

Þetta er fjórða árið í röð sem keppnin er haldin en í fyrra tóku alls 520 manns þátt. Mikil aukning hefur átt sér stað á milli ára en fyrsta árið 2012 tóku 78 manns þátt og árið 2013 um 200 manns.

Í keppninni í fyrra söfnuðust alls 15.227.244 krónur í áheitasöfnun WOW Cyclothon til styrktar tækjakaupum fyrir bæklunarskurðdeild Landspítala-Háskólasjúkrahús. Fyrir söfnunarféð var keyptur C-bogi og áhöld til notkunar í smásjáraðgerðum við tengingar á taugum og æðum. Formleg afhending á C-boganum fór fram í desember síðastliðnum.

Áheitaverkefnið fyrir WOW Cyclothon í ár verður tilkynnt á næstu vikum og vonanst er eftir að enn meira fé safnist til styrktar góðu málefni.

Skráning í WOW Cyclothon hefst formlega í dag á heimasíðu keppninnar; http://www.wowcyclothon.is/ og lýkur 5. maí.