WOW Cyclothon hjólreiðakeppnin verður haldin í þriðja sinn dagana 24. júní -27. júní .  Í keppninni verður hjólað  með boðsveitarformi hringinn í kringum landið, um Hvalfjörð og yfir Öxi, samtals 1.332 kílómetra á innan við 72 tímum.  Þetta er þriðja árið í röð sem keppnin er haldin en í ár er áætlað að um 400 manns muni taka þátt í keppninni. Mikil aukning hefur átt sér stað á milli ára en fyrsta árið 2012 tóku 78 manns þátt og í fyrra um 200 manns. Það er því 100% aukning á milli ára, eins og segir í tilkynningu frá WOW.

Markmiðið er ekki eingöngu að hjóla til sigurs heldur einnig að styðja gott málefni. Í ár er markmiðið að safna um 10 milljónum til styrktar tækjakaupum fyrir bæklunarskurðdeild Landspítala-Háskólasjúkrahús en mikill skortur hefur verið á tækjum og þörf á endurnýjun þeirra.  Þessi deild hefur ekki fengið gjafir né styrkveitingar í langan tíma og ríkir því mikil gleði á meðal starfsmanna bæklunarskurðdeildar.

„Færanleg skyggnitæki eru nauðsynleg vinnutól í ýmsum sérgreinum.  Þau eru í raun færanleg röntgentæki, sem notuð eru við skurðaðgerðir.  Í bæklunarskurðlækningum eru þau skiljanlega eitt mikilvægasta tækið.  Með aðstoð þeirra eru skökk brot færð í réttar skorður og eftir atvikum ýmist gipsuð eða fest með plötum, skrúfum eða nöglum.  Þegar brot eru gróin eru tækin svo notuð til að staðsetja málm af nákvæmni áður en skurður er lagður.  Þannig er hægt að fjarlægja aðskotahluti með sem minnstum áverka.  Allir aldurshópar njóta góðs af slíku tæki - ekki síst þeir, sem er hætt við brotum, eins og börnum og öldruðum. Um flókna hátæknivöru er að ræða og eins og með aðrar slíkar vörur hefur þróun þeirra verið hröð á síðustu árum og sérhæfingin aukist.  Ekkert eitt tæki þjónar öllum þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra.  Munar þar annars vegar mestu á þörfum við aðgerðir á stórum, þykkum líkamssvæðum eins og hrygg og hins vegar á smærri svæðum eins og höndum og fótum.  Sjúkrahúsið hefur nýlega fengið tæki til stórra aðgerða en vantar tilfinnanlega tæki, sem hefur nægilega lipurð og upplausn til að tryggja bestu niðurstöðuna hjá þeim fjölmörgu, sem brotna á höndum eða fótum.  Slíkt tæki yrði sterkur burðarás fyrir sjúkrahúsið og myndi tvímælalaust stuðla að því, að áfram verði hægt að veita slösuðum meðferð í fremstu röð,‟ segir Björn Pétur Sigurðsson, sérfræðilæknir í bæklunaraðgerðum á höndum.

Aðstandendur WOW Cyclothon vonast því eftir að sem flest lið skrái sig í keppnina og að allir landsmenn láti þetta málefni sig varða og taki þátt í áheitasöfnunni á vefsíðu keppninnar, www.wowcyclothon.is .

Í keppninni í ár er boðið upp á þrjá flokka.  Í A- flokki keppninnar eru fjórir hjólreiðamenn og tveir bílstjórar. Í B-flokki eru allt að tíu keppendur saman í liði sem vinna saman að því að komast í mark innan tímamarka en þessi flokkur er kjörinn fyrir hópefli. Fjölmörg fyrirtæki hafa nú þegar skráð sig í þennan flokk.

Í ár verður einnig boðið upp á nýjung en það er einstaklingsflokkur þar sem einn hjólreiðamaður hjólar alla 1332 km einn síns liðs og hefur til þess 84 klukkustundir. Nánari upplýsingar er að finna á heimsíðu keppninnar: www.wowcyclothon.is