Ekki er hægt að bóka flugmiða með Wow air til átta áfangastaða af fjórtán flugleiðum félagsins á morgun, samkvæmt bókunarkerfi félagsins. Ekki er hægt að bóka flugferðir til Amsterdam, Parísar eða Kaupmannahafnar í fyrramálið. Þá er heldur ekki hægt að bóka miða með Wow air síðdegis á morgun til New York, Washington, Boston, Toronto eða Montreal. Þá kostar flugmiðinn til London með Wow air aðra leið nú 115 þúsund krónur bæði á morgun og miðvikudag.

Samkvæmt upplýsingum frá Wow air er ekki búið að fella niður neinar flugferðir í þessari viku. „Ekki er búið að fella niður nein flug frá og með morgundeginum en nokkur flug þessa vikuna eru fullbókuð," segir í svari frá Wow air.

Áfram er opið fyrir bókanir til Tenerife, Kanarí, Berlín og Frankfurt á morgun. Þá hefur ein flugvél félagsins verið kyrrsett í Montreal og önnur á Kúbu. Auk þess hefur Wow air seinkað flugferðum sínum frá Keflavíkurflugvelli í dag.

Von er á nánari upplýsingum í dag um viðræður félagsins við skuldabréfaeigendur þess.

Fréttin hefur verið uppfærð með svari frá Wow air.