Wow air, flugfélag Skúla Mogensen, flytur eftir áramót höfuðstöðvar sínar í nýjan turn á Höfðatorgsreitnum. Félagið mun hreiðra þar um sig á tveimur hæðum og verður starfsemin þá á þremur hæðum í tveimur turnum við Höfðatorg.

Hluti starfseminnar er nú þegar á sjöundu hæð turnsins við Höfðatorg. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, segir félagið hins vegar áfram stefna að því að flytja í nýjar höfuðstöðvar við Vesturvör á Kársnesinu í Kópavogi.

Framkvæmdir eru hins vegar ekki hafnar við nýjar höfuðstöðvar. Auk höfuðstöðvanna hyggst félagið reisa hótel á svipuðum slóðum, eins og fram hefur komið í fréttum. Starfsemi Wow er nú í þremur húsum.

Auk hæðarinnar á Höfðatorgi er félagið í fjólubláa húsinu við Katrínartún og á tveimur hæðum, í húsi við Bríetartún. Svanhvít segir það hafa verið ljóst alveg frá hruni að fjólubláa húsið yrði rifið og nýtt hús byggt í stað þess.

Sömu sögu er að segja af húsinu við Bríetartún. Nú hyllir undir niðurrif húsanna og þarf félagið því á nýju húsnæði að halda þangað til hægt verður að flytja í nýjar höfuðstöðvar. Það verður þó að sögn Svanhvítar ekki í náinni framtíð.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .