*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 6. desember 2018 12:25

Wow gæti farið sömu leið og Wizz

Indigo Partners hefur áður tekist á við reglugerð Evrópusambandsins um eignarhald flugfélaga.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Ekki hefur verið greint frá því hve stóran hlut í Wow air Indigo Partners muni kaupa eða hverjir skilmálar kaupanna eru almennt. Þar sem Wow air starfar á grundvelli íslensks flugrekstarleyfis getur Indigo þó ekki orðið eigandi að meirihluta í félaginu samkvæmt þeim reglum sem gilda um leyfið. Indigo Partners er bandarískt félag og kveður reglugerð ESB sem innleidd hefur verið á Íslandi á um að flugrekstrarleyfi sé bundið við það að ríkisborgarar aðildarríkja innan EES-svæðisins eigi meira en 50% hlut í fyrirtækinu. Þar sem Indigo er bandarískt á félagið því ekki að geta eignast meirihluta í Wow air.

Samkvæmt þeim sérfræðingum sem Viðskiptablaðið ræddi við má þó teljast líklegt að Indigo muni hafa yfirráð yfir meirihluta hlutafjár Wow með einum eða öðrum hætti, þá sérstaklega vegna þess hve fjárþurfi félagið er á sama tíma og hámarkskaupverð Icelandair á Wow air hafi verið í kringum 4 milljarða króna.

Fari svo að Indigo Partners muni fara með meirihluta hlutafjár Wow yrði það ekki í fyrsta sinn sem forsvarsmenn Indigo Partners takast á við þessa reglugerð. Í skráningarlýsingu Wizz air frá árinu 2015 kom fram að Indigo Partners færi með um 20% hlut í Wizz í gegnum félagið Indigo Hungary Management LLC. Wizz air er með ungverskt flugrekstrarleyfi og fellur þar með undir reglur ESB.  Í lýsingunni kom þó einnig fram að raunverulegur hlutur Indigo væri mun meiri eða á þeim tíma 66,5%. Hefði sá hlutur verið beinn hefði það ekki uppfyllt reglur ESB. Þau 46% sem bættust ofan á beint eignarhald í Wizz voru hins vegar bundin í breytanlegum fjármálagerningum sem höfðu þó ekki atkvæðarétt. 

Í raun var um eins konar Bhluti í félaginu að ræða. Var þetta fyrirkomulag sem uppfyllti skilyrði evrópskra eftirlitsaðila og lét József Váradi, forstjóri og stofnandi Wizz air, hafa það eftir sér við breska blaðið The Times árið 2015 að ekki væri verið að fara í kringum reglurnar. Þetta hafi nokkrum sinnum verið útskýrt fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og að fyrirkomulag eignarhaldsins væri „skothelt“. Fari svo að Indigo Partners muni fara með meirihluta hlutafjár Wow telja þeir sérfræðingar sem blaðið ræddi við líklegt að farin verði lík leið eins og hér hefur verið lýst.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.