Wow air hefur gert athugasemdir við drög að nýrri reglugerð, sem að sögn flugfélagsins gefur Ferðamálastofu „alltof matskennda heimild“ til að reikna út fjárhæð trygginga sem ferðaskrifstofur verða að útvega vegna pakkaferða. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Ofangreint kemur fram í umsögn Wow air um drög atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að nýrri reglugerð. Umrædd reglugerð byggir á lögum sem tóku gildi um áramótin. Lögin gætu leitt til þess að þeim fyrirtækjum í ferðaþjónustu, sem þurfa að útvega tryggingar vegna pakkaferða, fjölgi um tugi eða hundruð á þessu ári.

Samkvæmt fyrrnefndum drögum tekur Ferðamálastofa ákvörðun um fjárhæð tryggingarinnar, en WOW air telur það óásættanlegt.

Wow air leggur til að reglan verði endurskrifuð í heild sinni á þann veg að um raunverulega reiknireglu verði um að ræða.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sem var samþykkt í fyrra. Mun hún því setja reglugerð byggða á frumvarpinu.