Túristi greinir frá því að WOW air hafi hækkað gjaldskrá sína hvað varðar flugfarangur og sætisval farþega.

Þeir sem panta flug hjá flugfélaginu þurfa nú að borga 3.990 krónur fyrir eina innritaða tösku hvora leið. Sá sem fer fram og til baka þarf því að greiða tæpar átta þúsund krónur í farangursgjald. Nemur hækkunin 14,4% frá því í sumar.

Þá hefur WOW air einnig breytt gjaldskrá sinni fyrir sætisval og kostar nú 299 til 2.499 krónur að taka frá ákveðið pláss í flugvélum fyrirtækisins.

Aðspurður um þessar breytingar segir Skúli Mogensen, forstjóri, að félagið hafi verið að þreifa sig áfram með hliðartekjurnar og stundum hækkað en líka lækkað einstaka gjaldskrárliði.