Tekjur WOW air á árinu 2015 voru 17 milljarðar króna, samanborið við 10,7 milljarða ári áður. Þetta er tekjuaukning um 58% milli ára. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 1,1 milljarði króna.

EBITDA félagsins var 2,4 milljarðar króna og jókst um 3 milljarða milli ára. Rekstrarhagnaður ársins 2015 var 1,5 milljarður króna, en hann var neikvæður um 700 milljónir á árinu 2014. Sætanýting batnar milli ára. Sætanýtingin var 88% á síðasta ári, en hún var 84% ári áður.

Í lok árs var félagið ekki með neinar vaxtaberandi skuldir að undanskilinni erlendri fjármögnun tengdri kaupleigu á tveimum nýjum Airbus A321 vélum sem voru afhentar félaginu í mars síðastliðnum.

Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air segist vera ánægður með árið og sjá mikil tækifæri til vaxtar fyrir lággjaldaflugfélag í lengri flugleiðum:

„Árið 2015 var í alla staði frábært. Við keyptum okkar fyrstu flugvélar, hófum flug til Norður-Ameríku, kynntum flug til Kaliforníu og skiluðum góðum hagnaði þrátt fyrir að vera enn að fjárfesta mjög mikið í öllum innviðum og áframhaldandi vexti félagsins.“