WOW air mun hefja áætlunarflug til Delí á Indlandi 6.desember. Sala flugsæta hófst í dag en mikill áhugi er á þessari flugleið frá bæði Bandaríkjunum, Kanada og Indlandi segir í fréttatilkynningu félagsins.

Flogið verður í glænýrri Airbus A330neo vél flugfélagsins fimm sinnum í viku. Flugtíminn til Indlands er 10 og hálfur klukkutími og er þetta lengsta áætlunarflug Íslandssögunnar.

„Aldrei fyrr hefur verið boðið upp á beint áætlunarflug til Indlands frá Íslandi og það er gaman að geta átt þátt í því að marka tímamót í íslenskri flugsögu,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air. „Indland er land mikillar sögu og menningar og það fá farþegar okkar að upplifa á frábærum verðum, í glænýjum flugvélum.“

Höfuðborgin og önnur stærsta borgin

Delí er önnur stærsta borg Indlands á eftir Mumbai og þar má finna höfuðborg Indlands, Nýju-Delí. Á Indlandi er hægt að kynnast landi og þjóð á fjölbreyttan hátt og sjá ýmsa sögufræga staði á borð við Taj Mahal í Agra sem jafnan er talið eitt fegursta mannvirki á Indlandi en Shah Jahan mógúll reisti það til heiðurs konu sinnar Mumtaz Mahal sem lést af barnsförum 1631.

Þá eru þar haldnar ýmsar hátíðir á borð við Diwali (hátíð ljósanna) og Holi (hátíð lita) sem enginn má láta fram hjá sér fara segir loks í tilkynningu félagsins.