Skuldabréfeigendur Wow air hafa samþykkt að breyta kröfum sínum í hlutafé í félaginu. Þá hefur félagið hafið viðræður við fjárfesta um fjármögnun félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Wow air.

Í tilkynningunni segir að um mikilvægan áfanga sé að ræða í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og við að tryggja rekstur félagsins til framtíðar. Arctica Finance og Arion banki vinna nú að því að safna hlutafé fyrir Wow air. Rætt hefur verið um að safna fimm milljörðum króna í hlutafé sem veiti nýjum hluthöfum 51% hlut í Wow air.

Skuldabréfaeigendur Wow air lánuðu félaginu 60 milljónir evra í september, um átta milljarða króna. Þar af lánaði Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, 5,5 milljónir evra, um 750 milljónir króna. Ljóst er að þeir voru í þröngri stöðu. Á meðan viðræður Wow air við Indigo Partners stóðu yfir voru skuldabréfeigendurnir beðnir um að afskrifa 50% af höfuðstól lánsins, falla frá 150 milljón króna vaxtagreiðslur og lækka vexti skuldabréfanna úr 9% í 7%.

Ekki er minnst á aðra kröfuhafa Wow air en skuldabréfaeigendurna í tilkynningunni eða hver stóran hlut skuldabréfeigendurnir muni eiga í Wow air. Mbl.is greindi frá því í gær að miðað væri við að kröfuhafar Wow air myndu eignast alls 49% hlut í félaginu.

Wow air er talið skulda yfir 20 milljarða króna. Morgunblaðið greindi frá því í gær að ógreidd lendingargjöld hjá Isavia sem nema 1,8 milljörðum króna hafi verið breytt í lán. Þá skuldi flugfélagið Arion banka 1,6 milljarða og flugvélaleigjendunum Avolon og ALC samtals 3,5 milljarða króna.