Skúli Mogensen forstjóri Wow air segir koma til greina að opna nýja starfstöð fyrir flugfélagið utan landsteinanna vegna þess hve mikil örtröð sé orðin á Keflavíkurflugvelli.

Segir hann í samtali við Irish Independent að Dublin flugvöllur sé einn þeirra sem komi til greina, en einnig sé verið að skoða tvo aðra mögulega staði.

„Hann er nálægt Íslandi, sem auðveldar framkvæmdina," segir Skúli en hann segir að örtröð sé þó einnig vandamál á Dublin flugvelli.

„Mér líkar við Dublin af ýmsum ástæðum. Þeir njóta forgangs í flugi til Bandaríkjanna. Hann er þekkt miðstöð flugsérþekkingar. Flugvöllurinn hefur vaxið mikið, svo það er heilmikil umferð flugvéla þangað."

Fyrir tveimur árum síðan hóf Wow air flug til Dublin sem tengist með oft um 65 til 90 mínútna biðtíma við flug áfram til Bandaríkjanna.

Myndi Wow staðsetja tvær til þrjár flugvélar til að byrja með í nýrri miðstöð, en Skúli segir að ný miðstöð gæti haft allt að 17 flugvélar staðsettar þar innan fimm ára. Myndu það vera langdrægar flugvélar eins og Airbus A330, Airbus A321neo eða A321LR.