Forsvarsfólk Wow air leitaði í vikunni til Icelandair til að kanna áhuga flugfélagsins á því að hefja viðræður um yfirtöku á nýjan leik, samkvæmt heimildum Túrista .

Eftir stormasama tíma hjá lággjaldaflugfélaginu síðasta haust leitaði Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri, til samkeppnisaðilans Icelandair til að forða félaginu frá gjaldþroti, í byrjun nóvember . Viðræður stóðu yfir í nokkrar vikur, en upp úr þeim slitnaði í lok mánaðar, og sama dag var tilkynnt um viðræður Wow við Indigo. Í gær rann svo frestur félagsins gagnvart skuldabréfaeigendum til að ljúka samningaviðræðum við Indigo út, en tilkynnt var um kvöldið að óskað yrði eftir mánaðar framlengingu til að ljúka ferlinu.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, vildi ekki tjá sig um hvort forsvarsmenn Wow air hefðu leitað til félagsins, þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því.