„Það er opið fyrir umsóknir í þriggja mánaða sumarstarf, þar sem þú munt flytja til Íslands og ferðast um heiminn með besta vini þínum,“ segir í auglýsingu WOW air um nýja sumarstöðu sem fyrirtækið hyggst setja á laggirnar. Þeim mun því verða borgað fyrir að búa á Íslandi og ferðast um heiminn.

Umræddum einstaklingum er ætlað að búa til rafræna ferðahandbók (e. travel guide) fyrir alla 38 áfangastaði Wow.

Í starfslýsingunni segir að starfsmennirnir muni ferðast um heiminn, kynnast menningu, matarvenjum, skemmtanalífi og náttúru fjölda áfangastaða. Þeim er ætlað að búa til myndbandsfærslur af stöðunum og birta myndir á samfélagsmiðlum til þess að kynna þá.

Wow mun aðeins taka við umsóknum á myndbandsformi og umsækjendur eiga að búa til rafræna ferðahandbók um eigin borg. Umsóknarfrestur er til 14 maí en verkefnið hefst þann 1. júní.