*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 14. janúar 2019 14:33

Wow með lægstu fargjöldin frá upphafi

Fargjaldið hjá Wow air auglýst á 49 dali, eða sem samsvarar tæplega 6 þúsund krónum, yfir Atlantshafið.

Ritstjórn
Skúli Mogensen er forstjóri Wow air, sem býður nú flugfargjaldið yfir Atlantshafið á undir 6 þúsund krónum.
Haraldur Guðjónsson

Flugfélagið Wow air hefur auglýst lægsta fargjald í sögu sinni, það er 49 Bandaríkjadali, eða sem samsvarar tæplega 6.000 krónum, fyrir flug yfir Atlantshafið. Kemur tilboðið til viðbótar við janúarútsölur á flugi til Íslands frá Dublin fyrir undir 30 evrur, eða sem samsvarar 4.165 krónum.

Tilkynningin um afsláttarverðið kom í dag, en um er að ræða flug frá Boston, Washington, New York og Detroit, til Dublin, Brussel, Frankfurt og London í gegnum Keflavíkurflugvöll. „Við erum spennt fyrir að bjóða okkar lægsta verð fyrir ferðamenn sem dreymt hafa um ferð til Evrópu í ár,“ er haft eftir Skúla á síðunni PRNewswire.

Afsláttarverðið gildir fyrir flug frá 21. janúar næstkomandi til 11. mars, en tilboðinu sjálfu lýkur 18. janúar næstkomandi, eða þegar allir miðar hafa verið seldir.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er Skúli nú í viðræðum við Indigo Partners, eigenda lággjaldaflugfélaga í bæði Evrópu og Bandaríkjunum, um að kaupa 49% hlut í Wow air. Fyrr í haust var tilkynnt um að Icelandair hyggðist kaupa Wow en hætt var við þau viðskipti.