*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 10. desember 2019 19:02

Wow meðal fallinna risa á áratugnum

Wow air er á lista yfir 20 markverðustu gjaldþrot síðustu tíu ára.

Ritstjórn
Wow air varð gjaldþrota í mars.
epa

Gjaldþrot Wow air á meðal félaga markverðustu gjaldþrota áratogsins sem nú er að líða samkvæmt samantekt Yahoo Finance. Bent er á að Wow hafi vaxið hratt byggt á lágri álagningu líkt og önnur lággjaldaflugfélög. Flugfélaginu hafi ekki tekist að tryggja sér aukið fjármagn en var bæði skuldsett og í lausafjárvandræðum og því fór sem fór.

Smásölurisar áberandi

Félög sem ekki hafa tekist að halda í við breytingar í smásölu, sér í lagi í samkeppni við netrisa á borð við Amazon eru áberandi á listanum. Meðal félaga sem Yahoo rifjar upp að hafi orðið gjaldþrota er Blockbuster sem var lengi vel stærsta myndabandaleigukeðja Bandaríkjanna. Fyrirtækið rak þegar mest var yfir níu þúsund verslanir en varð undir í samkeppni við Netflix og aðrar streymisveitur. Félagið fór í greiðslustöðvun árið 2010 og var að lokum lýst gjaldþrota í janúar 2014.

RadioShack er annað félag sem ekki náði að halda í við tækniframfarir. Félagið var frægt fyrir að selja Walkman vasadiskó, boombox og fleiri tæki á árum áður en gekki illa að keppa við ný vörumerki á borð við Best Buy og Amazon. Félagið rak þegar mest var yfir 4.500 verslanir. Yahoo segir félagið hafi verið illa rekið og hafi reynt að vaxa út úr rekstrarerfiðleikunum sem endaði með gjaldþroti árið 2017.

Toys R Us fór í greiðslustöðvun í september 2017 eftir 60 ára rekstrarsögu. Leikfangakeðjan er annað dæmi um smásölufyrirtæki sem ekki tókst að takast á við samkeppni frá Amazon og keðjum á borð við Walmart og Target.

Víðtæk svik hjá Theranos

Theranos er einnig á listanum. Elizabeth Holmes stofnaði fyrirtækið eftir að hafa hætt í Stanford 19 ára gömul árið 2003. Markmiðið var að umbylta hvernig blóðsýnataka fer fram. Holmes taldi sig geta náð marktækum niðurstöðum í rannsóknum á blóði með margfalt minna magni frá hverjum einstaklingi en talið hafði verið mögulegt.

Theranos sótti 400 milljónir dollara í hlutafé til fjárfesta og var félagið metið á 9 milljarða dollara. Holmes komst á auðmannalista Forbes yfir þá einstaklinga sem eru taldir eiga meira en milljarð dollara vegna eignarhlutar hennar í Theranos.

Árið 2015 kom í ljós að fæstar fullyrðingar Holmes og Theranos stóðust og gengið hafi verið langt í að að koma í veg fyrir að svikin kæmu upp. Holmes og aðrir stjórnendur Theranos hafa síðan þá verið til rannsóknar í Bandaríkjunum vegna málsins. Theronos var lýst gjaldþrota í september 2018.