Áætlunarflug Wow air á milli Keflavíkur og Los Angeles fer nú fram með 40 mínútna stoppi í Edmonton í Kanada. Þetta má sjá á flugáætlun Wow air.

Wow air skilaði fjórum flugvélum í síðustu viku, þar af tveimur langdrægum A330 Airbus vélum. Eftir í flota Wow air er nú ein A330 Airbus flugvél. Wow air hyggst nýta A330 Airbus vélina í beint áætlunarflug á milli Nýju-Delí á Indlandi og Keflavíkur sem hefst á morgun. Fljúga á þrisvar í viku á milli Íslands og Indlands fram í febrúar þegar bæta á við fimm flugferðum á viku.

Samkvæmt fjárfestakynningu Pareto vegna skuldabréfaútboðs Wow air í haust er hámarksdrægni A330 vélanna um 11.100 kílómetrar en annarra véla í flota Wow air um 6.850 kílómetrar. Á milli Los Angeles og Keflavíkur eru ríflega 6.900 kílómetrar og um 7.600 kílómetrar á milli Keflavíkur og Nýju-Delí.

Wow air hefur sagst stefna að því að bæta við einni til tveimur A330 flugvélum í flugflotann snemma á næsta ári. Nokkur óvissa ríkir þó um þau áform sem og marga aðra þætti hvað varðar framtíð Wow air. Félagið á nú í viðræðum við Indigo Partners um fjárfestingu í Wow sem tryggja á framtíðarrekstrargrundvöll félagsins eftir að Icelandair féll frá kaupum á Wow air í síðustu viku.