Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hjá fasteignafélaginu Eik nam 5,56 milljörðum króna árið 2019 en var 5,2 milljarðar árið 2018. Stjórnendur Eikar segja rekstur síðasta árs hafa gengið vel og góður gangur hafi verið í útleigu.

Afkoman var þó örlítið undir EBIDTA afkomuspá sem skýrist af lakari afkomu Radisson BLU 1919 hótelsins við Pósthússtræti 2 vegna verri herbergjanýtingu eftir gjaldþrot WOW air og raski vegna endurbóta á herbergjum hótelsins. Spá ársins 2020 gerir ráð fyrir 5,6 milljarða EBITDA á föstu verðlagi en 5,7 milljörðum á verðlagi þessa árs.

Leigutekjur námu 7,4 milljörðum króna og jukust um 9,2% milli áranna 2018 og 2019. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað fjárfestingareigna og afskriftir nam 5,6 milljörðum, en matsbreyting fjárfestingareigna var upp á 2,2 milljarða króna. Handbært fé frá rekstri nam 3,1 milljarði króna og bókfært virði fasteigna félagsins nam 97,7 milljörðum króna. Vaxtaberandi skuldir námu 59,8 milljörðum og  vegnir verðtryggðir vextir 3,65%. Eiginfjárhlutfall var 31,7% í lok árs 2019 og virðisútleiguhlutfall 94,9%.

Undirbúa komu H&M á Glerártorg

Félagið ráðgerir að fjárfesta fyrir 1,5 til 2,5 milljarða króna á þessu ári í núverandi fasteignum félagsins. Meðal helstu verkefna er að undirbúa komu H&M á Glerártorg á Akureyri, endurbætur á jarðhæð Hótels 1919, innréttingar og standsetning á Suðurlandsbraut 10, breytingar á framhlið á Smáratorgi 3 og fleiri minni verkefni.