Wow air og Indigo Partners hafa ekki komist að samkomulagi um fjárfestingu Indigo Partners í Wow air.

Frestur sem skuldabréfaeigendur gáfu félögunum til að ná samkomulagi rennur út á miðnætti, 28. febrúar. Félögin segjast nú stefna á að ná samkomulagi í síðasta lagi 29. mars og munu hefja nýtt skriflegt ferli með skuldabréfaeigendum sínum þar sem óskað verður eftir lengri frest. Viðræður félaganna muni halda áfram í góðri trú en forsvarsmenn félaganna muni ekki tjá sig frekar að svo stöddu.

Áður hefur komið fram að Indigo stefni á að kaupa 49% hlut í Wow air. Félögum utan EES svæðisins er óheimilt að eiga meirihluta í flugfélagi innan þess.

Í desember sagðist Indigo tilbúið að leggja til 75 milljónir dollara, ríflega 9 milljarða króna í formi hlutafjár og lánsfjár í Wow. Í janúar var svo gefið út að Indigo myndi leggja fram það fé sem þyrfti til að halda Wow gangandi, að því gefnu að samningar næðust.