*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Fólk 6. febrúar 2020 18:15

Giuseppe og Björg til liðs við Wow

Wow air hefur ráðið Giuseppe Cataldo yfir starfsemi félagsins á Ítalíu. Björg Ásgeirsdóttir stýrir samfélagsmiðlum Wow air.

Ritstjórn
vb.is

Wow air hefur ráðið Giuseppe Cataldo yfir starfsemi félagsins á Ítalíu. Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður Wow air, greinir frá þessu á Linkedin. Hann mun hafa starfstöðvar í Róm og á Sikiley. Roosevelt Edwards greindi frá því á Linkedin í janúar að Sikiley væri einn fyrirhugaðra áfangastaða Wow air. 

Þá var Björg Ásgeirsdóttir í janúar aðstoðarmaður stjórnarformanns Wow og yfirmaður samfélagsmiðla hins fyrirhugaðra flugfélags. Hún lauk nýverið MBA gráðu og gráðu í markaðsfræði frá Baltimore háskóla.

Wow hefur bætt við sig fleiri stjórnendum að undanförnu auk þess sem Facebook síða félagsins var virkjuð á ný. Um helgina greindi Roosevelt Edwards frá því að Wow air hefði ráðið Bandaríkjamanninn Mark Pond sem framkvæmdastjóra sölumála og dreifileiða hjá Wow. Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að félagið hefði ráðið Kristján Þorvaldsson, yfirmann tæknimála en hann hafði áður starfað hjá Wow air og Marel.

Á blaðmannafundi sem Roosevelt Edwards hélt í september sagði hún að Wow hygðist taka á loft á ný í október. Þá hafði hún keypt vörumerkið úr þrotabúi flugfélagsins. Það rættist ekki en enn er unnið að því að endurvekja flugfélagið, þar sem félagið hyggst vera með starfsemi í Washington og í Keflavík.