Wow air ver rekið með 33,6 milljón dollara tapi, um 4,2 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins samanborið við 13,5 milljón dollara tap á sama tíma fyrir ári. EBITDA félagsins var neikvæð um 18,9 milljónir dollara samanborið við jákvæða EBITDA upp á 8,8 milljónir dollara á sama tímabili fyrir ári.

Félagið skilaði 14 milljón dollara hagnaði á þriðja ársfjórðungi sem jafnan er besti ársfjórðungur flugfélaga, þar sem það nær yfir háferðamannatímann samanborið við 11,5 milljón dollara hagnað á sama tímabili fyrir ári. Tekjur Wow aukast úr 349 milljónum dollara í 457 milljónir dollara á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tímabil fyrir ári. Á móti jókst rekstrarkostnaður úr 321 milljón dollara í 467 milljónir dollara.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 7% í lok september. Eignir þess námu 421 milljón dollara, skuldir 393 milljónum dollara og eigið fé 28 milljónum dollara. Handbært fé félagsins nam 40 milljónum dollara í lok september og hækkaði um 35 milljónir dollara á fjórðungnum.

Í tilkynningunni er ítrekað að ýmsir þættir hafi snúist til verri vegar hjá Wow air. Til að mynda hafi neikvæða fjölmiðlaumfjöllun í kringum 60 milljón evra skuldabréfaútboð félagsins ollið minni sölu, harðari lánaskilmálum og verri lausafjárstöðu en áætlanir hafi gert ráð fyrir. Þá hafi olíuverð einnig hækkað eftir útboðið þó sú hækkun hafi nú gengið til baka.

Wow air skrifaði í gær undir bráðabirgðasamkomulag við fjárfestingafélagið Indigo Partners um fjárfestingu þess í Wow air. Fjárfestingin er þó m.a. með fyrirvara um áreiðanleikakönnun á Wow air.