WOW air hefur breytt flugtímum sínum til spænsku borgarinnar Barcelona. Frá og með 2. nóvember verður flogið frá Keflavíkurflugvelli klukkan níu um morguninn og lent í Barcelona klukkan hálf þrjú að staðartíma. Þetta mun gera það að verkum að dagurinn þar ytra nýtist ferðalöngum mun betur en áður segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Þá verður heimflugið einnig á betri tíma en flogið er til Keflavíkur klukkan hálf fjögur að staðartíma og lent á Keflavíkurflugvelli klukkan hálf átta að kvöldi. Þetta er gert til þess að koma betur til móts við þarfir farþega sem vilja taka daginn snemma en áður voru þetta kvöldflug.

Barcelona er einn af rótgrónustu áfangastöðum WOW air og flogið er þangað tvisvar í viku yfir vetrarmánuðina, á fimmtudögum og sunnudögum. Veðurfarið er milt allan ársins hring og hitastig mælist á bilinu 8-17 gráður á veturna. Á sumrin getur hitastigið farið upp í 35 gráður segir jafnframt í tilkynningunni.