*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 7. mars 2019 09:35

Wow þarf að greiða 150 milljónir

Gjalddagi vaxtagreiðslna skuldabréfa Wow air verður 24. mars, en félagið er sagt ekki hafa greitt húsaleigu lengi.

Ritstjórn
Skúli Mogensen er forstjóri, eigandi og stofnandi Wow air.

Samkomulag við skuldabréfaeigendur Wow air um skilmálabreytingar á bréfunum féll úr gildi fyrir viku að því er Morgunblaðið segir vera ljóst.

Þetta gerðist þegar tilkynnt var um að ekki hefði náðst samkomulag við Indigo Partners um fjárfestingu síðarnefnda félagsins í flugfélaginu, en jafnframt var tilkynnt um að tillaga að nýju samkomulagi yrði lagt fyrir skuldabréfaeigendurnar.

Eins og sagt hefur verið frá í fréttum hafa skuldabréfaeigendurnir enn ekkert heyrt frá félaginu. Samkomulagið á sínum tíma fól í sér að lengt yrði í bréfunum sem og að eigendur bréfanna féllu frá forkaupsrétti að bréfum í félaginu.

Á sama tíma var tilkynnt um að fresturinn til að ná samkomulaginu, yrði framlengdur til 29. mars, en þann 24. mars næstkomandi er komið að ársfjórðungslegri vaxtagreiðslu skuldabréfanna að andvirði 150 milljóna króna.

Eins og sagt hefur verið frá í fréttum hefur Wow air ekki greitt lífeyrisiðgjöld starfsfólks félagsins þrjá mánuði aftur í tímann. Til viðbótar hefur félagið ekki greitt húsaleigu af skrifstofuhúsnæði í turninum á Höfðatorgi mánuðum saman að því er Morgunblaðið greinir frá.

Félagið rýmdi fyrir nokkru um 1.800 fermetra hæð í turninum sem það hefur haft á leigu, og stendur hún nú tóm, en leigusamningurinn fyrir rýminu rennur ekki út fyrr en um mitt þetta ár.