Tæplega 62 milljón króna krafa Rolls Royce í þrotabú Wow air, sem til er komin vegna hreyfilþrýstiblaða, telst ekki sem sértökukrafa í bú flugfélagsins. Hreyfilframleiðandinn gæti átt skaðabótakröfu á búið vegna háttsemi starfsfólks flugfélagsins en það yrði ávallt almenn krafa. Þetta felst í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í gær.

Undir lok september 2018 leigði Wow þrjá þotuhreyfla af Rolls Royce en samkvæmt leigusamningnum var Wow óheimilt að fjarlægja íhluti úr þeim án þess að nýir kæmu í staðinn. Þar stóð enn fremur að fjarlægðir íhlutir skyldu teljast eign Rolls Royce þar til aðrir íhlutir kæmu í staðinn.

Þrátt fyrir þessa skilmála voru öll þrýstiblöð hreyfilsins fjarlægð og var hluta þeirra komið fyrir í hreyflum vélanna TF-MOM og TF-KID. Kringum áramótin 2018/19 keypti Wow téðar vélar af leigusala sínum og seldi þær stuttu seinna til Air Canada. Þá voru hreyfilblöðin enn í vélunum en ekki í hinum leigða hreyfli. Við þrot Wow fór Rolls Royce fram á það á fá þau hreyfilblöð sem upp á vantaði, alls 29 talsins, afhent en því hafnaði þrotabúið.

Blöðin fjarlægð en ný ekki sett í staðinn

Í málinu hafði krafan tekið eilitlum breytingum og krafðist hreyfilframleiðandinn viðurkenningu á því að söluandvirði blaðanna teldist sértökukrafa. Fyrir liggur að alls var kröfum upp á 151 milljörðum króna en langstærstur hluti þeirra eru almennar kröfur sem ekkert mun fást upp í. Forgangskröfur námu 5,8 milljörðum króna og líklega mun eitthvað koma upp í þær.

Rolls Royce taldi að Wow hefði fjarlægt þrýstiblöðin í trássi við skilmála leigusamningsins. Af þeim sökum hefði félagið orðið eigandi blaðanna úr TF-MOM og TF-KID við skiptin. Fyrir því fyrirkomulagi væri alþekkt venja innan fluggeirans og færu slík skipti vanalega fram án þess að þau væru skjalfest sérstaklega. Taldi félagið af ef ekki yrði fallist á kröfu sína myndi þrotabúið auðgast með ólögmætum hætti á kostnað hreyfilframleiðandans.

Þrotabúið byggði á því á móti að Rolls Royce væri ekki og hefði aldrei verið eigandi þeirra hreyfilblaða sem fjarlægð voru úr TF-MOM og TF-KID. Vissulega hefði það átt hinn leigða hreyfil og þar með þrýstiblöðin í honum og víst hefðu þau blöð verið fjarlægð og sett í hreyflanna á vélunum tveimur. Hin fjarlægðu blöð hafi aftur á móti ekki verið í eigu Rolls Royce og þeim ekki komið fyrir í hinum umþrætta hreyfli.

„[Þrotabúið] byggir á því að fyrrgreind ætluð brot Wow air hf. á leigusamningi við [Rolls Royce] varði því ekki að [Rolls Royce] teljist eigandi annarra þrýstiblaða en þeirr sem hann byggir á að Wow air hf. hafi ráðstafað án heimildar. [Rolls Royce] beri að leita réttar síns gagnvart Air Canada en ekki [þrotabúinu]. Ætlað brot Wow air hf. gegn leigusamningu kunni að leiða til bótaskyldu en möguleg bótakrafa sé aðeins almenn krafa í þrotabúið, sem ekki sé tekin afstaða til við skiptin,“ segir í málsástæðukafla þrotabúsins.

Skaðabótakrafa en ekki sértökukrafa

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að hin fjarlægðu þrýstiblöð, sem fylgdu með við söluna til Air Canada, hefðu verið eign Rolls Royce og Wow hafi því selt eigu þriðja aðila. Það hafi síðan dregist að setja hin blöðin í hinn leigða hreyfil og með því hafi skilyrðum venjunnar ekki verið fullnægt.

„Samningurinn gerði jafnframt ráð fyrir að varahlutum yrði tafarlaust komið fyrir í þotuhreyflinum í stað þeirra íhluta sem voru fjarlægðir. Þetta var ekki gert og höfðu þrýstiblöðin ekki verið sett í þotuhreyfilinn þegar Wow air var tekið til gjaldþrotaskipta […]. Eignarréttur [Rolls Royce] á þeim þrýstiblöðum sem voru upphaflega fjarlægð úr þotuhreyflinum hélst óbreyttur samkvæmt samningnum þar til sett höfðu verið þrýstiblöð í þrotuhreyfilinn sem uppfylltu gæðakröfu samningsins og voru kvaðalaus í síðasta lagi þegar varahlutnum var komið fyrir í þotuhreyflinum,“ segir í niðurstöðunni.

Af þeim sökum féllst dómurinn ekki á röksemdir Rolls Royce og hafnaði eignarrétti félagsins að þrýstiblöðunum. Háttsemi starfsmanna Wow gæti einungis leitt til þess að Rolls Royce eignaðist skaðabótakröfu í búið en slík krafa teldist almenn krafa en ekki sértökukrafa. Málskostnaður var látinn falla niður.