*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 30. desember 2017 14:15

WOW þarf starfsstöð erlendis

Skúli Mogensen segir allt að því óhjákvæmilegt að opna starfsstöð WOW air erlendis. Félagið er þó ekki á leið úr landi.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Skúli Mogensen segir allt að því óhjákvæmilegt að opna starfsstöð WOW air erlendis. Félagið er þó ekki á leið úr landi. „Það er ekki af því að við viljum flýja Ísland. Ísland er okkar kjarnastöð en það er óhjákvæmilegt ef við ætlum að halda áfram að finna hæft fólk með reynslu að við þurfum að leita út fyrir landsteinana. Við rekumst á veggi nánast alls staðar. Eina lausnin er að búa til nýja starfsstöð erlendis. Fjöldi fólks sem flýgur og tíðni flugferða hefur vaxið ár frá ári í sjötíu ár.

Heildarmarkaðurinn í fluginu er alltaf að stækka, þvert á þá viðteknu skoðun að flug sé svo áhættusamt, flókið og erfitt. Staðreyndin er að fáir geirar hafa vaxið jafnstöðugt – ekki bara í tíu ár heldur sjötíu ár. Fyrir vikið er flugmannaskortur alls staðar í heiminum og ekkert lát virðist vera á því. Flugmenn á Íslandi eru í raun „uppseldir“. Það er mjög mikilvægt að lagalegt umhverfi hérlendis sé þannig að við getum opnað starfsstöð erlendis því annars erum við bara stopp.

Ég lendi oft í þeirri umræðu að það er ekki það að við viljum fara. Fyrsti kostur væri að ráða alla á Íslandi og að við gætum öll unnið sem eitt fyrirtæki undir einu þaki. Það er val númer eitt. Stundum er það ekki raunhæft og þá verðum við að gera annað. Þegar við tölum um að setja upp starfsstöð annars staðar heldur fólk stundum að það búi eitthvað annað að baki. Þetta snýst ekki um að flýja land heldur að starfsstöð erlendis styrki íslensku stoðina. Ef við getum ekki fært okkur til útlanda þá gæti íslenska stoðin veikst og hreinlega orðið undir í samkeppninni með tíð og tíma.“

Skúli ræddi þann möguleika í haust að Wow air opnaði starfsstöð erlendis með það að markmiði að fljúga milli áfangastaða án viðkomu á Íslandi.

„Fyrst ætlum við að koma okkur aðeins betur fyrir á Íslandi og bæta reksturinn okkar enn frekar og koma hugbúnaðarlausnunum sem við erum að þróa núna almennilega í gagnið. Síðan ætlum við að framkvæma þá sýn að hliðartekjurnar verði meiri en aðaltekjurnar, með því að þjónusta farþega okkar alveg út í eitt. Þegar við erum búin að koma þessum liðum í gagnið þá myndi ég treysta okkur til að fara inn á nánast hvaða markað sem er og setja upp nýja flugmiðstöð (e. hub) í samkeppni við öflugustu flugfélög í heimi. Það eru tveir hvatar þar að baki. Við lendum á veggjum á Íslandi en svo finnst mér þetta líka bara svo spennandi.

Það er ágætt að vera Íslandsmeistari en mig langar að vera heimsmeistari. Nú þegar þjóðin er öll að tala um HM í fótbolta  finnst mér svo áhugavert að bera saman að ef þú ert fótboltastrákur þá máttu segjast vilja spila með Barcelona. En ef þú ert í viðskiptum á Íslandi er álítið skrýtið ef þú ætlar að verða bestur í heimi. Ég hef aldrei tekið þátt í því heldur horfi til erlendu keppinautanna. Ísland alltaf verið lykiltannhjól en þegar kemur að markaðssvæðinu þá lít ég á heiminn sem minn leikvöll. Það væri áhugavert að prófa að taka WOW air-vörumerkið, þekkinguna, undirliggjandi tækni og „konseptið“ í heild sinni eitthvert annað. Við erum enn að vaxa svo hratt á heimavelli, en það er ekki spurning að við munum opna fleiri starfsstöðvar innan nokkurra ára.“

 Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Skúli Mogensen WOW air Viðtal Áramót
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is