*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Fjölmiðlapistlar 7. apríl 2019 13:34

WOWfugl

Það var samt eilítið skrýtið að sjá þegar Björgólfur Jóhannsson var fenginn í viðtal til þess að tjá sig um þennan forna fjanda.

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Wow hefur verið mál málanna liðna daga. Þar ræðir ekki aðeins um stórt fyrirtæki (og segja má að ímynd þess hafi verið jafnvel enn stærri) og fjölda starfa, heldur hefur það frá öndverðu verið atvinnuævintýri nátengt uppgangi ferðaþjónustunnar, sem nú er orðin ein höfuðstoð íslensks atvinnulífs. Á sinn hátt er það líka huglægt, því Wow hefur verið afar vinsælt fyrirtæki, hvort sem horft er til ótrúlegs fjölda atvinnuumsókna, þegar það hefur auglýst eftir mannskap, eða mælinga í skoðanakönnunum. Einn spakvitur kunningi fjölmiðlarýnis tók það raunar lengra og sagði að í margra hugum hefði Wow verið tákngervingur hinnar efnahagslegu endurreisnar eftir bankahrun. Því setti vafalaust hroll að mörgum, sem óttuðust að vandræði félagsins væru tákn þess sem koma skyldi.

                                                                               ***

 Fjölmiðlar hafa vitaskuld fylgst náið með þessum sviptingum öllum og almennt tekist vel upp við það. Það var samt eilítið skrýtið að sjá þegar Björgólfur Jóhannsson var fenginn í viðtal til þess að tjá sig um þennan forna fjanda, en hann var sem kunnugt er til skamms tíma við stjórnvölinn á Icelandair. Ekki svo að skilja að það hafi verið einkennilegt út af fyrir sig, en vandinn kannski fremur sá að hann er nú stjórnarformaður Íslandsstofu. Þær meiningar gátu hæglega rekist á, líkt og margir telja að hafi einmitt verið raunin. Það verður hann auðvitað að eiga við Íslandsstofu og ekkert að því að fjölmiðlar greini frá, þó það kunni að hafa komið Wow illa í þröngri stöðu og mögulega ekki beint til þess fallið að bæta ímynd Íslands sem ferðamannaparadísar. Á hinn bóginn hefðu fjölmiðlar gjarnan mátt ganga eftir því við Björgólf hverjir hagsmunir hans kynnu að vera. Er hann til dæmis hluthafi í Icelandair eða á hann eitthvað undir velgengni félagsins að öðru leyti? Fjölmiðlarýnir hefur svo sem ekki hugmynd um hvernig því er farið, en ekki er ósennilegt að honum hafi í forstjóratíð sinni áskotnast einhverjir hlutir í félaginu. Hann er tæplega stór hluthafi, en á móti kemur að hluturinn þarf ekki að vera stór til þess að hann skipti Björgólf miklu máli. Hvernig sem í því liggur, þá hefði það átt að koma fram í þessarri umfjöllun.

                                                                               ***

 Það hefur víðar verið dramatík í þjóðfélaginu liðna daga, þar með talið í húsakynnum Alþingis, þar sem Már Guðmundsson Seðlabankastjóri var til yfirheyrslu í liðinni viku. Þar þóttu þó einna fréttnæmust orðaskipti Baldvins Þorsteinssonar við Má, en hann bað Seðlabankastjóra vinsamlegast um að „drulla sér“, þegar hann myndaðist við að heilsa föður Baldvins, Þorsteini Má Baldvinssyni í Samherja. Fjölmiðlarýnir sá út undan sér að einhverjum þótti sá fréttaflutningur skrýtinn; þar hafi skaphitinn greinilega borið Baldvin ofurliði og ástæðulaust að segja fréttir af persónulegu uppnámi af því taginu. Það er misskilningur, þetta var vissulega fréttaefni, hvernig sem á er litið. Nú er það auðvitað svo að fréttum veitir ekki af smá lit og þegar það glittir í persónur og leikendur ber að draga það fram í stað þess að flytja bara þurrlegar skýrslur af aðilum máls. Það er ekki heldur svo að Baldvin sé einhver pjakkur, sem hafi tekið þykkjuna fyrir karl föður sinn, hann er stjórnarformaður Eimskipa auk ýmislegs annars sem hann sýslar við fyrir hönd Samherjamanna. Umfram allt var þessi uppákoma á opinberum stað, í kjölfar yfirheyrslu þingnefndar um málefni, sem varðar allan almenning.

                                                                               ***

 Annars er um nóg að fjalla þar sem málefni Samherja og Seðlabankans eru annars vegar, m.a. í fjölmiðlarýni. Það er engu líkara en menn hafi algerlega gleymt upphafi þeirra, sem mátti rekja til Kastljóss Ríkissjónvarpsins. Það var nefnilega svo þegar rannsókn sérstaks saksóknara, Seðlabankans og tollstjóraembættisins á meintum gjaldeyrisbrotum Samherja hófst, var frá því greint að tilefni hennar væru ábendingar starfsmanna Kastljóss. Rannsóknarblaðamenn þess höfðu þá skoðað málefni tengd útflutningi sjávarafurða og m.a. borið gögn um þau undir gjaldeyriseftirlit Seðlabankans. Í framhaldi af því hafi rannsóknin hafist, en gjaldeyriseftirlitið hefði farið þess á leit við Kastljós að það héldi í sér til þess að verja mikilvæga rannsóknarhagsmuni og við því var orðið. Sagnfræðingurinn Björn Jón Bragason vék að upphafi málsins í bók sinni Gjaldeyriseftirlið, en þar kom fram að Helgi Seljan, þá fréttamaður Kastljóss, hefði verið staddur í þorrablóti austur á fjörðum snemma árs 2012 þegar fyrrverandi sjómaður Síldarvinnslunnar á Neskaupstað sagði honum frá vangaveltum sínum um að Samherji seldi karfa til dótturfélaga sinna erlendis á undirverði. Sem varð til þess að Helgi fór á fund starfsmanna gjaldeyriseftirlitsins, þeir til Seðlabankastjóra og bankinn tók að rúlla. Þeirri frásögn hefur ekki verið mótmælt. Nú er það auðvitað merkilegt að þessi ótrúlega langa rekistefna Seðlabankans, sem hann hefur verið gerður afturreka með á öllum stigum málsins (en Seðlabankastjóri er enn að dylgja um að Samherji sé nú samt einhvernveginn sekur í sínum huga) hafi byggst á vangaveltum eins einasta manns með hákarl og brennivín við hönd. Fjölmiðlarýni þykir þó eiginlega enn athyglisverðara þetta sérkennilega samband fjölmiðils og rannsóknarvalds, sem umboðsmaður Alþingis varpar vonandi frekara ljósi á. Getur það verið að fjölmiðillinn hafi hvatt til rannsóknar og fengið svo einkarétt á fréttinni sem laun síðar? Það er eitthvað mikið bogið við það. Allt þetta hlýtur að kalla á skýringar Kastljóss á aðkomu þess og samstarfi við gjaldeyriseftirlið, viðurkenningu á að fréttin hafi reynst röng og afsökunarbeiðni. Eitthvað hefur ljóslega verið bogið við gögnin, sem í upphafi var vísað til, og með ólíkindum að málið hafi verið reist á aðeins einni heimild, fremur reikulli.

                                                                               ***

 Annað mál, mjög lauslega tengt: Hinn 22. mars féll dómur í Landsrétti í ærumeiðingamáli Guðmundar Spartakusar Ómarssonar gegn Atla Má Gylfasyni, fv. blaðamanni á Stundinni, vegna frétta þar sem stefnandi var borinn sökum um svívirðilegan glæp, sem varðar að lögum ævilöngu fangelsi, og hann sagður hafa glæpastarfsemi að framfærslu. Héraðsdómur hafði sýknað Atla, en Landsréttur sneri dómnum við og dæmdi hann til greiðslu hárra miskabóta og dómkostnaðar, sem fellur á skattgreiðendur vegna gjafsóknar ríkissjóðs, en Stundinni gert að birta dóminn og forsendur hans. Þetta er merkilegur dómur um margt og ástæðulaust að andæfa honum. Raunar einhver afdráttarlausasti og lengsti dómur, sem kveðinn hefur verið upp vegna ærumeiðinga á Íslandi. Líkt og þar sagði var fréttin birt þrátt fyrir að ekkert lægi fyrir um að Spartakus hefði verið kærður fyrir hið ætlaða brot, ákæra verið gefin út eða dómur fallið. Enn frekar þó að „engin gögn eða upplýsingar í málinu styddu fullyrðingar [Atla Más], heldur væri þar eingöngu vísað til nafnlauss heimildarmanns“. Þetta síðasta er ótrúlegast í málinu, að frétt um svo alvarlegt athæfi byggðist aðeins á einum einasta heimildarmanni og honum ónafngreindum. Auðvitað getur verið snúið fyrir fjölmiðla að fjalla um mál úr undirheimunum, en það má ekki leiða til þess að þeir láti rétt og sanngjörn vinnubrögð lönd og leið. Þar þurfa þeir að leita a.m.k. tveggja sjálfstæðra heimilda um það sem ekki liggur þeim mun skýrar fyrir. Þær mega vera ónafngreindar verði öðru ekki við komið, en eins er rétt að leita fleiri heimilda, helst opinberra, um einstaka þætti og ætlaðar staðreyndir flókins máls af þessu tagi. Ekki verður séð að það hafi verið reynt, hvað þá meir. Sú ábyrgð hvílir ekki á blaðamanninum einum, heldur á fréttastjóri eða ritstjóri að ganga á eftir því að fréttin sé rétt og með tryggar heimildir. Traust lesenda fjölmiðla hvílir einmitt á því að þeir auðsýni vönduð vinnubrögð af því taginu, að fréttirnar hvíli ekki aðeins á kappi eða trúgirni eins blaðamanns, heldur miðlinum sem stofnun með öguð vinnubrögð.